Háhyrningar á Pollinum í Skutulsfirði

Háhyrningar á ferðinni í morgun.
Háhyrningar á ferðinni í morgun. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Að minnsta kosti fimm háhyrningar hafa sést synda á Pollinum í Skutulsfirði í dag.

Að sögn Halldórs Sveinbjörnssonar, ljósmyndara og fréttaritara mbl.is á staðnum, er sjórinn dálítið úfinn og því erfitt að telja dýrin. Hann segir karldýrið vera langstærst og telur að líklega séu fjögur stór dýr þarna á ferðinni ásamt einhverjum kálfum.

„Það er mjög tignarlegt að sjá þetta. Þetta eru eins og litlir seglbátar, það eru svo stórir uggar á þessum dýrum,“ segir hann.

Tugum bíla hefur verið lagt við hafnarbakkann á Ísafirði þar sem fólk hefur fylgst með háhyrningunum. Sjónaukar og myndavélar hafa verið á lofti.

Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Hættuleg dýr

Halldór segir þetta sjaldséð dýr á þessu svæði og nefnir að þau séu ein þau hættulegustu í hafinu og elti seli meðal annars upp í fjörur.

„Við ætluðum þrjú að fara að róa á kajak en snarhættum við þegar við sáum þessa háhyrninga,“ segir hann.

Sjálfur myndaði hann nokkra slíka fyrir mörgum árum þegar þeir syntu meðfram honum er hann reri út að Hnífsdal. „Mér stóð ekki á sama,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert