Spáð er suðvestlægri átt á gossvæðinu í dag, 7 til 10 metrum á sekúndu og lítilsháttar vætu öðru hvoru. Hiti verður á bilinu 3 til 7 stig.
Þetta kemur fram á facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum. Þar kemur fram að lokað verður inn á gossvæðið klukkan 18 í kvöld og rýming hefst klukkan 22. Áætlað er að viðbragðsaðilar ljúki störfum þar fyrir miðnætti.
Vakin er athygli á bröttum hlíðum á leiðinni til og frá gossvæðinu og er fólk hvatt til að vera vel klætt og taka regnföt með sér.
„Gönguskór duga til ferðar en ekki strigaskór. Húfur, vettlingar og mannbroddar. Takið andlitsgrímur með og notið þegar ekki reynist unnt að tryggja 2 metra í næsta mann. Safnist ekki saman í hópa en haldið ykkar hóp. Í brekkunum eru reipi sem komið var fyrir vegna þess að brekkurnar eru brattar og erfiðar mörgum. Undanfarna daga hafa þær verið hálar. Takið litla sprittbrúsa með ykkur og sprittið hendur eftir að hafa haldið í reipi. Gönguleiðir eru ekki fyrir lítil börn,“ segir í tilkynningunni.
„Sóttvarnalæknir hefur hvatt fólk til að sitja heima. Reipin í bröttum brekkunum geta borið COVID-19-smit. Forðist að snerta þau ef þið treystið ykkur til. Ef ekki sprittið hendur á eftir. Tryggjum 2 metra nálægðarmörkin á milli fólks sem eru ekki í nánum tengslum. Grímuskylda er þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Grímuskylda á ekki við um börn fædd 2005 eða síðar.“