Ljóðið er eins og tilraunastofa

Á síðasta ári voru liðin fjörutíu ár frá því Einar Már Guðmundsson sendi frá sér fyrstu ljóðabókina, Er nokkur í Kórónafötum hér inni? Sama ár kom svo út önnur ljóðabók hans, Sendisveinninn er einmana, og svo þriðja bókin ári síðar, Róbinson Krúsó snýr aftur.

Í Dagmálum dagsins ræðir Einar Már við Árna Matthíasson um þessar bækur þrjár, sem gefnar voru út saman á bók fyrir síðustu jól, og einnig um ljóðabókina Til þeirra sem málið varðar, sem kom út fyrir tveimur árum.

Einar ræðir einnig ferilinn og það hvernig ljóðin hafi litað líf hans og skáldskap, enda segir hann að ljóð hafi alltaf mótað stemninguna, andann. „Þess vegna hef ég oft sagt að ljóðið sé eins og tilraunastofan, þú ert að vinna með tungumálið að skapa heim. Ef þú tekur skáldsögur, við getum tekið sem dæmi Engla alheimsins, þá var ég til dæmis búinn að yrkja talsvert af ljóðum sem eru eiginlega í bókinni. Að segja sögu er nefnilega ekki bara einföld frásögn, heldur líka að lifa sig inn í heim og sá heimur er í eðli sínu ljóðrænn.“

Dagmál eru þættir sem aðgengilegir eru áskrifendum Morgunblaðsins og má nálgast þá á mbl.is.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert