Opnað var fyrir umferð að gosstöðvunum á Reykjanesskaga klukkan 6 í morgun. Töluverð biðröð var af fólki sem vildi vera snemma á ferðinni til að sjá eldgosið í Geldingadölum. Að sögn Gunnars Schram, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurnesjum, er veðrið mjög gott á svæðinu.
Hann segir að nóttin hafi verið býsna góð. Nokkur tilvik voru þar sem aðstoða þurfti fólk sem hafði orðið fyrir hnjaski á göngu eða vegna þreytu.
Vegna áttleysu þegar vindurinn datt niður og gasið færðist til þurfti jafnframt að beina fólki á aðra staði.
„Gærdagurinn gekk mjög vel. Skipulagið hélt, bílastæðin fylltust aldrei alveg og rútuferðirnar voru nýttar eftir því sem leið á gærdaginn,“ segir Gunnar.
Spurður hvort vísa hafi þurft erlendum ferðamönnum frá svæðinu í gær sem voru í sóttkví kvaðst hann ekki hafa heyrt neitt um það en í fyrradag voru þeir fjórir talsins.