Sprautuð með Spútnik

Spútnik V dælt í vinstri öxl Hildar Sifjar í Pétursborg …
Spútnik V dælt í vinstri öxl Hildar Sifjar í Pétursborg í Rússlandi í gær, 1. apríl, og ekkert aprílgabb þar á ferð heldur blákaldur veruleiki. Hún er hress eftir bólusetninguna og klár í síðari sprautuna eftir þrjár vikur. Ljósmynd/Aðsend

„Það lá eig­in­lega bara beint við að skella okk­ur í bólu­setn­ingu hérna,“ seg­ir Hild­ur Sif Thor­ar­en­sen, verk­fræðing­ur og rit­höf­und­ur, stödd í Pét­urs­borg í Rússlandi en bú­sett í Asker í Nor­egi, í sam­tali við mbl.is í dag, en Hild­ur gekkst í gær und­ir fyrri spraut­una í bólu­setn­ingu gegn kór­ónu­veirunni með rúss­neska bólu­efn­inu Spútnik V og gerði meira að segja stutt mynd­band af at­höfn­inni fyr­ir mbl.is.

Hild­ur seg­ir fjöl­skyld­una hafa hugsað sér að koma til baka til Nor­egs í sum­ar, en hún er í fæðing­ar­or­lofi eins og er, en þó við það að taka fyrstu skref­in í nýju starfi sem for­rit­ari hjá norsku fyr­ir­tæki. Þar sem sótt­varn­a­regl­ur í Nor­egi geri, þegar þetta er skrifað, ráð fyr­ir sjö daga sótt­kví á hót­eli við komu til lands­ins, sem mælst hef­ur ákaf­lega mis­jafn­lega fyr­ir hjá Norðmönn­um jafnt sem er­lend­um gest­um, eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag, taldi Hild­ur það eina vitið að drífa bólu­setn­ing­una bara af í Rússlandi og hafa vaðið fyr­ir neðan sig við kom­una aft­ur til Nor­egs.

Hildur Sif, Dmitri Antonov maður hennar og dóttirin Annabella Sif …
Hild­ur Sif, Dmitri Ant­onov maður henn­ar og dótt­ir­in Anna­bella Sif Thor­ar­en­sen sem þeim fædd­ist í Pét­urs­borg í fyrra þrátt fyr­ir að vera bú­sett í Nor­egi. Hild­ur Sif kveðst hæst­ánægð með þjón­ust­una í rúss­neska heil­brigðis­kerf­inu. Ljós­mynd/​Aðsend

„Eins er lík­lega stutt í að þessi bólu­setn­ing­ar­vega­bréf fari að verða við lýði víðast hvar, til dæm­is er mik­ill áhugi fyr­ir þeim á Íslandi og okk­ur lang­ar nú að geta farið með barnið okk­ar til Íslands svo við ákváðum að at­huga hvort við gæt­um fengið bólu­setn­ingu hér,“ út­skýr­ir Hild­ur sem er stödd í nuddi meðan spjallið fer fram.

Bara óbreytt­ir túrist­ar

Maður Hild­ar er Dmitri Ant­onov sem er mjög fjölþjóðleg­ur, son­ur rúss­nesks föður og rúss­nesk-eist­neskr­ar móður, fædd­ur í Tall­inn í Eistlandi en ís­lensk­ur rík­is­borg­ari, stúd­ent frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík, sagn­fræðing­ur frá Há­skóla Íslands og tölv­un­ar­fræðing­ur frá Há­skól­an­um í Reykja­vík. Hann er fag­stjóri gagna­deild­ar norsks tæknifyr­ir­tæk­is og sinn­ir starfi sínu þar við tölvu­skjá­inn í Pét­urs­borg meðan á dvöl­inni stend­ur. Fjar­vinna eins og veru­leiki margra er þessi miss­er­in.

Til að byrja með seg­ir Hild­ur þau hafa haft sam­band við sitt sjúkra­hús í Pét­urs­borg, þar sem hún eignaðist dótt­ur þeirra í fyrra, og spurt hvort hægt væri að bólu­setja þau. „Þar var okk­ur sagt að það væri ekki hægt þar sem við vær­um bara óbreytt­ir túrist­ar. Ég hafði þá sam­band við sendi­ráðið og var þar bent á ræðismann Íslands hér í Pét­urs­borg,“ seg­ir Hild­ur af bólu­setn­ingaráformun­um.

Lykja af Spútnik V í hendi hjúkrunarfræðingsins sem bólusetti Hildi …
Lykja af Spútnik V í hendi hjúkr­un­ar­fræðings­ins sem bólu­setti Hildi Sif. Efnið var gadd­freðið en fræðing­ur­inn þíddi það í hendi sér áður en Hildi var sett nál­in. Ljós­mynd/​Aðsend

Þar hafi niðurstaðan orðið sú að hægt væri að verða við ósk­um þeirra Íslend­ing­anna og úr varð að Hild­ur fékk fyrri spraut­una í gær og Dmitri á tíma í næstu viku.

Hvernig gekk þetta allt sam­an fyr­ir sig?

„Við fór­um á spít­ala sem heit­ir Euromed. Þar þurfti að fylla út heil­mik­inn spurn­ingalista um heilsu­far og þeir taka bara tvo í einu svo við gát­um ekki farið bæði, þannig er það fyr­ir þá sem koma í gegn­um sendi­ráðin skilst mér, við erum á und­anþágu þar sem við erum ferðamenn,“ seg­ir Hild­ur og var Dmitri því skipaður tökumaður en afrakst­ur þeirr­ar starf­semi má sjá neðan við viðtalið.

Af­skap­lega átaka­laust

Hún fór því næst í viðtal til lækn­is sem fram­kvæmdi á henni heilsu­fars­skoðun og spurði ít­ar­legra spurn­inga um heilsu­far, lyfja­notk­un og fleira. „Þetta er mjög form­legt hér í Rússlandi, maður fer ekki í bólu­setn­ingu nema að und­an­geng­inni lækn­is­skoðun, dótt­ir mín þurfti til dæm­is að byrja á að fara í skoðun til barna­lækn­is áður en hún fékk sín­ar bólu­setn­ing­ar,“ seg­ir Hild­ur.

Þar með hafi verið komið að sjálfri bólu­setn­ing­unni. Þar hafi hjúkr­un­ar­fræðing­ur tekið á móti þeim Dmitri og dregið fram gadd­freðna lykju með Spútnik-efn­inu sem hún þíddi á skammri stundu í lófa sér.

„Þetta var af­skap­lega átaka­laust, ég fann hvorki fyr­ir stung­unni né því þegar hún dældi lyf­inu í mig og svo var þetta bara búið,“ seg­ir Hild­ur sem svo þurfti að bíða í hálf­tíma til að ganga úr skugga um að of­næmisviðbrögð gerðu ekki vart við sig.

Fjarlægðarregla Pútíns er einn og hálfur metri og kirfilega auglýst …
Fjar­lægðarregla Pútíns er einn og hálf­ur metri og kirfi­lega aug­lýst á hús­gögn­um heil­brigðis­stofn­ana, þar sem þó æva skyldi. Ljós­mynd/​Aðsend

Nú, sól­ar­hring síðar, líði henni bara ágæt­lega. „Ég er búin að fara í sjúkraþjálf­un og gera fullt af alls kon­ar æf­ing­um. Ég mældi hit­ann í morg­un og var með ein­hverj­ar komm­ur en ann­ars finn ég ekki fyr­ir nein­um ein­kenn­um svo þetta er bara hið besta mál, mjög átaka­lít­il bólu­setn­ing.“

Hvað með Covid-stemmn­ing­una í Rússlandi?

„Fólki hér er nú flestu bara orðið ná­kvæm­lega sama,“ svar­ar Hild­ur. „Yf­ir­völd hvetja til grímu­notk­un­ar og þess að fólk haldi eins og hálfs metra fjar­lægð í næsta mann sem er regl­an hér, en það er eig­in­lega al­veg sama hvert maður fer, fólk er ekki með grím­ur og virðist lítið spá í þetta. Í hús­inu sem við búum í vilja all­ir endi­lega koma með okk­ur í lyft­una svo eig­in­lega má segja að fólk hér hafi jafn lít­inn áhuga á þessu og Íslend­ing­ar hafa mik­inn áhuga á því,“ seg­ir Hild­ur og hlær.

Veit­inga­hús, versl­an­ir og aðrir sam­komu­staðir sé allt opið upp á gátt og að sögn Hild­ar er nán­ast eina grímu­klædda fólkið, sem þau hafi orðið vör við, lækn­ar.

En hvernig stend­ur á þess­ari Rúss­lands­dvöl þeirra yf­ir­leitt?

„Ég fór til Rúss­lands í fyrra til að eign­ast barnið mitt á einka­spítala hér í Pét­urs­borg. Það kann að koma spánskt fyr­ir sjón­ir að velja Rúss­land fram yfir Nor­eg en reynsla okk­ar fjöl­skyld­unn­ar af lækn­isþjón­ustu í Rússlandi er al­veg hreint frá­bær og ég gat ekki hugsað mér að eiga barnið mitt neins staðar ann­ars staðar. All­ir lækn­ar sem við höf­um verið í sam­skipt­um við hafa verið ein­stak­lega vel að sér og áhuga­sam­ir um að hjálpa okk­ur.

Grímuklæddur Íslendingur á götu í hinni fornfrægu Pétursborg sem eitt …
Grímu­klædd­ur Íslend­ing­ur á götu í hinni forn­frægu Pét­urs­borg sem eitt sinn hét Leningrad. Hild­ur Sif er í fæðing­ar­or­lofi og fæst við skáld­sagna­rit­un en er einnig að hefja nýtt starf sem for­rit­ari í Nor­egi. Ljós­mynd/​Aðsend

Ekki kem­ur að sök að hér eru lækn­is­tím­arn­ir klukku­tími en ekki um fimmtán mín­út­ur eins og við erum flest vön. Fram til þessa hef ég verið í fæðing­ar­or­lofi í Pét­urs­borg og að dunda mér við að skrifa skáld­sögu. Nú tek­ur hins veg­ar al­var­an við þar sem ég er búin að ráða mig í vinnu í Nor­egi og er því á leið aft­ur til baka í sum­ar, ef Covid leyf­ir,“ seg­ir Hild­ur af Rúss­lands­dvöl­inni.

Vill að Íslend­ing­ar kaupi Spútnik

Hún kveðst vona að fyrr en síðar fari að sjá fyr­ir end­ann á heims­far­aldr­in­um sem sett hef­ur mark sitt á dag­legt líf velflestra jarðarbúa vel á annað ár. Auk þess tel­ur hún fulla ástæðu til að ís­lensk yf­ir­völd gangi til samn­inga við Rússa um kaup á Spútnik V.

„Reynsla þeirra sem við höf­um verið í sam­bandi við, bæði lækna og annarra, hér­lend­is og er­lend­is, er mjög góð og eft­ir að [breska tíma­ritið] Lancet birti grein um ágæti bólu­efn­is­ins er erfitt að sjá hvað sé í raun því til fyr­ir­stöðu að Ísland stökkvi á vagn­inn og fjár­festi í rúss­neskri eðal­vöru.

Ítal­ir virðast vera bún­ir að semja við Rúss­ana og Aust­ur­rík­is­menn eru einnig farn­ir að stíga í væng­inn við þá svo það hlýt­ur að fara að koma að því að hægt sé að skoða þenn­an mögu­leika í stað þess að halda áfram í slags­mál­um um það litla sem er til af öðru bólu­efni. Ég lét að minnsta kosti vaða og fékk mér eina Spútnik V með öllu,“ seg­ir Hild­ur Sif Thor­ar­en­sen að lok­um, ís­lensk­ur verk­fræðing­ur og rit­höf­und­ur ný­bólu­sett­ur í Pét­urs­borg.

Hér fyr­ir neðan má sjá mynd­skeið af bólu­setn­ing­unni í gær með ís­lensk­um texta þar sem grím­an vill hamla hljóðbærni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert