Velferðarnefnd Alþingis kemur saman eftir helgi til að ræða nýjar ráðstafanir á landamærum, sem fela í sér skyldudvöl á sóttkvíarhótelum fyrir ferðalanga frá tilteknum löndum. Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar og þingmaður Samfylkingar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Tímasetning hefur ekki verið ákveðin en Helga Vala á von á að fundurinn verði haldinn eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudag. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra verður boðuð á fundinn, en ekki hefur verið ákveðið hvort aðrir verði kallaðir til. Aðeins þarf fjórðung nefndarmanna til að fundur sé haldinn utan hefðbundins fundartíma ef ráðherra er boðaður.
Helga Vala tekur fram að hún sé fylgjandi sóttvarnaráðstöfunum, en mikilvægt sé að fá úr því skorið hvort lagastoð sé fyrir þeim aðgerðum sem gripið er til.
„Ég hef áhyggjur af því að ekki sé lagastoð fyrir þessu og þá erum við komin í vond mál. Það hefur enginn áhuga á því að skattfé almennings sé varið í endalausar bætur því að við getum ekki haft lagasetninguna í lagi,“ segir hún.
Helga Vala bendir á að þegar breytingar á sóttvarnalögum voru samþykktar á þingi í desember hafi ýmis ákvæði verið felld úr frumvarpinu vegna óeiningar innan ríkisstjórnarflokkanna. Þar á meðal voru heimildir til að setja á útgöngubann, skylda fólk í bólusetningu og skylda fólk til að halda sóttkví á tilteknum stað.
Í sóttvarnalögum er því kveðið á um heimild sóttvarnalæknis til að halda úti sóttvarnahúsum en það er samkvæmt skilgreiningu „staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun [...]“. Ekkert er þó í lögunum um heimild til að halda fólki þar, ef það hefur í önnur hús að venda.
„Það er hvergi í lagaákvæðinu að finna heimild til að skylda fólk í sóttkví í sóttvarnahúsi,“ segir Helga Vala en bætir við að hún muni glöð draga það til baka ef einhver bendir á lagaheimildina.
Hún spurði heilbrigðisráðherra einmitt út í málið á þingfundi í síðustu viku og fékk þau svör að lagaheimild væri til staðar án þess að vísað væri á hvar hún er.