Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tvær tilkynningar um búðarhnupl í gærkvöldi.
Sú fyrri barst laust fyrir klukkan 20 úr miðbæ Reykjavíkur. Maður var stöðvaður er hann var að yfirgefa verslunina með vörur sem hann hafði ekki greitt fyrir.
Síðari tilkynningin barst upp úr klukkan hálftólf þegar maður var stöðvaður þegar hann var að yfirgefa verslun í Breiðholti með vörur sem hann hafði ekki greitt fyrir.
Upp úr klukkan 17 í gær var ofurölvi maður handtekinn í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann var að kasta af sér vatni utandyra. Hann var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglunnar, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Bifreið stöðvuð í hverfi 105 á tíunda tímanum í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna.
Önnur bifreið var stöðvuð laust fyrir klukkan hálfeitt í nótt í hverfi 104. Ökumaðurinn reyndist ekki hafa ökuréttindi, þ.e. hann hefur aldrei öðlast réttindi. Um ítrekað brot var að ræða.
Afskipti voru höfð af ökumanni bifreiðar í Árbænum skömmu síðar. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og er grunaður um vörslu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.