Á Siglufirði og Ólafsfirði er spáð tveggja gráðu hita ofan hæstu fjalla í um 1.300 m hæð nú á miðnætti. Sólarhring síðar, aðfaranótt páskadags, er spáð sautján gráða frosti í sömu hæð.
Hitastigið fellur því um 19 stig á þessu tímabili. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í samtali við mbl.is að þetta sé óvenjulegt.
Það fer úr því að vera eins hlýtt og getur mögulega verið, 5-9 stiga hiti, sem Einar bendir á að sé hár hiti í byrjun apríl, síðan verði fasaskipti og skyndilega víkur hlýja loftið til vesturs og í staðinn streymir inn ískalt loft úr norðri.
Að sögn Einars er loftið nú fyrir vestan Grænland og síðan streymir það yfir Grænlandsjökul og blandast þar öðru köldu lofti sem kemur úr norðri.
„Og allt þetta kemur yfir okkur.“
Einar bendir á að það verði hvasst á undan hitafallinu, sérstaklega á Norðurlandi í fyrramálið. Seinni partinn muni snjóa alls staðar og því fylgi hálka. Einar segir að frekar verði um snjófjúk að ræða en beinlínis hríðarveður.
Einar bendir á að þrátt fyrir að hitafall sem þetta sé óvanalegt sé það ekki einsdæmi og bendir á að margir þeir sem eldri eru muni eftir enn skarpara hitafalli, sem varð 9. apríl í dymbilvikunni árið 1963.
Á vef Veðurstofunnar má finna ýmsar upplýsingar um páskahret á Íslandi yfir tíðina. Þar segir að í páskahretinu árið 1963 hafi orðið miklir mannskaðar. Átján menn fórust þá á sjó en þeir höfðu verið á fimm mismunandi bátum, allir voru þeir norðan við land.
Þá urðu einnig fjárskaðar og rúður brotnuðu í húsum. Bíll fauk af vegi og steinsteypt sæluhús fauk sömuleiðis. Á páskadaginn fauk síðan þak af fjárhúsum á Snæfellsnesi.