Bárust 34 vindorkukostir

Landsvirkjun hefur staðið að þróunarverkefni við Búrfell.
Landsvirkjun hefur staðið að þróunarverkefni við Búrfell. mbl.is/Árni Sæberg
Verkefnisstjórninni vegna fjórða áfanga rammáætlunnar bárust 34 kostir um vindorkuver. Hins vegar var það aðeins í fimm tilvikum sem nægileg gögn fylgdu svo hægt yrði að leggja mat á vindorkukostina.
Verkefnisstjórnin lætur af störfum 5. apríl og bíða því 29 vindorkuvalkostir úrvinnslu næstu verkefnisstjórnar.

Drög verkefnisstjórnarinnar að flokkun virkjunarkosta gera ráð fyrir að þrír virkjunarkostir vegna vindorku fari í nýtingarflokk. Eru það vindmyllugarðurinn í Garpsdal í Reykhólahreppi þar sem 37 myllur sem framleiða 130 MW eru fyrirhugaðar, auk Alviðru í Borgarbyggð þar sem gert er ráð fyrir 6 vindmyllum sem framleiða 30 MW og Vindheimavirkjun í Hörgárbyggð með 8 til 10 vindmyllur og 25 til 35 MW.

Þá er lagt til að hugsanlegt 120 MW vindorkuver með 30 vindmyllum í Búrfellslundi í Rangárþingi ytra og 27 vindmyllur með 151 MW framleiðslu að Sólheimum í Dalabyggð verði færð í biðflokk.

„Þótt vindurinn sé óþrjótandi er land undir vindorkuver það ekki. Landið er hin takmarkaða auðlind í þessu tilfelli. Vindmyllur eru nú um 150 m háar og fara hækkandi. Þær eru því afar áberandi í landslagi og sjást víða að. Vindorkuver munu valda miklum breytingum á ásýnd landsins ef ekki verður varlega farið,“ segir í skýrslu verkefnisstjórnarinnar, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert