Drög verkefnisstjórnarinnar að flokkun virkjunarkosta gera ráð fyrir að þrír virkjunarkostir vegna vindorku fari í nýtingarflokk. Eru það vindmyllugarðurinn í Garpsdal í Reykhólahreppi þar sem 37 myllur sem framleiða 130 MW eru fyrirhugaðar, auk Alviðru í Borgarbyggð þar sem gert er ráð fyrir 6 vindmyllum sem framleiða 30 MW og Vindheimavirkjun í Hörgárbyggð með 8 til 10 vindmyllur og 25 til 35 MW.
Þá er lagt til að hugsanlegt 120 MW vindorkuver með 30 vindmyllum í Búrfellslundi í Rangárþingi ytra og 27 vindmyllur með 151 MW framleiðslu að Sólheimum í Dalabyggð verði færð í biðflokk.
„Þótt vindurinn sé óþrjótandi er land undir vindorkuver það ekki. Landið er hin takmarkaða auðlind í þessu tilfelli. Vindmyllur eru nú um 150 m háar og fara hækkandi. Þær eru því afar áberandi í landslagi og sjást víða að. Vindorkuver munu valda miklum breytingum á ásýnd landsins ef ekki verður varlega farið,“ segir í skýrslu verkefnisstjórnarinnar, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.