Dæmt til að greiða Sony 800 þúsund krónur

Víkurverk notaði útgáfu tónlistarmannsins Marvin Gaye af laginu Ain´t No …
Víkurverk notaði útgáfu tónlistarmannsins Marvin Gaye af laginu Ain´t No Mountain High Enough í hjólhýsaauglýsingu.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Víkurverk í síðustu viku til að greiða útgáfurisanum Sony 800 þúsund krónur fyrir að nota útgáfu tónlistarmannsins Marvin Gaye af laginu Ain´t No Mountain High Enough í hjólhýsaauglýsingu.

Sony krafði Víkurverk um 16 milljónir, að því er fram kemur á vef RÚV sem greinir frá.

Í stefnu Sony kom fram að auglýsingin hefði birst ítrekað á tíma þar sem hlustun og áhorf var mest. 

Víkurverk sagði hins vegar að auglýsingin hefði verið í loftinu í eina viku og tekin úr spilun um leið og bent var á að lagið væri leikið í heimildarleysi.

Dómurinn segir fjölda spilana ekki skipta máli en ljóst sé að skiptin séu einhver.

Víkurverk var dæmt til að greiða Sony 800 þúsund. Miskabótakröfu Sony var hafnað en dómurinn taldi útgáfurisann ekki geta sýnt fram á að spilun eða framsetning lagsins hafi vegið að heiðri þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert