Í bústað, hitta vinina og elta góða veðrið

Nú segjast 29% eða mun fleiri en í fyrra gera …
Nú segjast 29% eða mun fleiri en í fyrra gera ráð fyrir að fara í útivistarferð, s.s. gönguferð, jeppa- eða snjósleðaferð á þessu ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsmenn verða á ferð og flugi um landið á komandi mánuðum. Segjast níu af hverjum tíu vera með áform um ferðalög á árinu og langflestir ætla að ferðast innanlands. Þetta kemur fram í nýbirtum niðurstöðum úr könnun Ferðamálastofu um ferðahegðun Íslendinga í fyrra og ferðaáformin í ár. Í fyrra ferðuðust 86% landsmanna innanlands og ef marka má svörin má búast við að enn þá fleiri leggi land undir fót á yfirstandandi ári þar sem um þriðjungur landsmanna hefur í hyggju að ferðast meira innanlands í ár en í fyrra.

Þátttakendur svöruðu könnuninni í lok janúar til 15. febrúar eða áður en smitum tók að fjölga á ný en alls óvíst er hvort yfirstandandi smitbylgja hefur nokkur áhrif á ferðahug landans. Útivist og hreyfing utandyra hefur aukist verulega á tímum veirufaraldursins. Um sjö af hverjum tíu segjast hafa stundað almenna útiveru einu sinni í viku eða oftar og um fjórðungur fór oftar en einu sinni í mánuði í lengri gönguferðir í fyrra.

Grafík/mbl.is

Nú segjast 29% eða mun fleiri en í fyrra gera ráð fyrir að fara í útivistarferð, s.s. gönguferð, jeppa- eða snjósleðaferð á þessu ári. Þetta er sérstaklega áberandi í yngstu aldurshópunum en 39% fólks á aldrinum 18 til 29 ára ætla í útivistarferð innanlands á yfirstandandi ári. Stærsti hópur svarenda eða 56% ætla að fara í sumarbústaðaferð, um 46% í heimsókn til vina og ættingja, 35% ætla að elta góða veðrið og um 30% að fara í ferð með vinum eða klúbbfélögum.

Þá vekur athygli að mun fleiri nefna í ár en í fyrra að þeir ætli í borgar- eða bæjarferð innanlands eða ríflega einn af hverjum þremur.

Af heildinni sögðust um 67% aldrei hafa stundað skokk, hlaup …
Af heildinni sögðust um 67% aldrei hafa stundað skokk, hlaup eða náttúruhlaup í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að utanlandsferðum landsmanna hafi fækkað mikið í faraldrinum sagðist þó um fjórðungur hafa ferðast til annarra landa á seinasta ári. Núna gerir um fimmtungur landsmanna ráð fyrir að fara í borgarferð á þessu ári og tæplega fimmtungur gerir ráð fyrir að fara í sólarlandaferð en á sama tíma í fyrra var hlutfall þeirra sem ætlaði í sólarlandaferð 44%. Talsverður munur er þó á þessum áformum eftir hópum, þannig gera talsvert fleiri karlar (24%) en konur (16%) ráð fyrir að fara í borgarferð til annarra landa á þessu ári. Yngsti aldurshópurinn sker sig nokkuð úr. Einn af hverjum fjórum einstaklingum á aldrinum 18 til 29 ára hafa hug á að heimsækja vini og ættingja erlendis í ár og 23% fólks á þessum aldri segjast gera ráð fyrir að fara í sólarlandaferð.

Þegar spurt var hvort þátttakendur í könnuninni telji að þeir muni ferðast minna, álíka mikið eða meira til útlanda á árinu 2021 en þeir gerðu í fyrra segjast 39% fólks á aldrinum 18 til 29 ára telja að það muni ferðast mun meira eða heldur meira til útlanda í ár en í fyrra. Námsmenn skera sig úr því 59% þeirra gera ráð fyrir að ferðast meira til annarra landa.

Núna gerir um fimmtungur landsmanna ráð fyrir að fara í …
Núna gerir um fimmtungur landsmanna ráð fyrir að fara í borgarferð á þessu ári og tæplega fimmtungur gerir ráð fyrir að fara í sólarlandaferð en á sama tíma í fyrra var hlutfall þeirra sem ætlaði í sólarlandaferð 44%. AFP

Fróðlegt er að skoða hvað fólk hafði fyrir stafni á ferðalögum um landið og í útivist á seinasta ári. Tæp 66% sögðust hafa farið einu sinni eða oftar í lengri gönguferðir eða fjallgöngur eða jöklaferðir á síðasta ári. Af heildinni sögðust um 67% aldrei hafa stundað skokk, hlaup eða náttúruhlaup í fyrra en yngri aldurshóparnir skera sig úr hópi hlaupafólks, þar sem 68% 18 til 29 ára og 43% fólks á aldrinum 30 til 49 ára sögðust hafa stundað skokk eða hlaup í fyrra. 36,4% landsmanna fóru í stuttar eða lengri hjóla- og fjallahjólaferðir á seinasta ári.

35% karla í stangveiði

Mikill meirihluti landsmanna eða um 64% sögðust í könnun Ferðamálastofu hafa upplifað eða kynnt sér einstök náttúrufyrirbæri, menningarminjar, dýra- og plöntulíf á seinasta ári og rúmlega 13% landsmanna fóru í reiðtúr í fyrra.
Könnunin leiðir enn fremur í ljós að tæplega fjórðungur landsmanna …
Könnunin leiðir enn fremur í ljós að tæplega fjórðungur landsmanna stundaði einhverja stangveiði. mbl.is/Ómar Óskarsson
Könnunin leiðir enn fremur í ljós að tæplega fjórðungur landsmanna stundaði einhverja stangveiði, þar með talið sjóstangaveiði og dorgveiði, í fyrra. Svörin eru þó mjög mismunandi eftir hópum. Þannig sögðust 35% karla hafa stundað stangveiði í fyrra en 10% kvenna. Stangveiðin er einnig mun algengari meðal stjórnenda og æðstu embættismanna en annarra hópa. 40% þeirra sögðust hafa stundað stangveiði í fyrra. Um 21% landsmanna fór á skíði, snjóbretti eða ísskauta, 13% í sjósund eða sund í vötnum og 22% landsmanna fóru í jeppa-/fjórhjóla- og vélsleðaferðir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert