Sex greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og voru fjórir í sóttkví og tveir utan sóttkvíar. Einn greindist á landamærunum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Nýgengi innanlandssmita mælist nú 22,9. Nýgengi landamærasmita mælist 10,6.
Rakning er hafin á smitunum utan sóttkvíar og gengur sú rakning vel að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, samskiptastjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Nú eru 124 í einangrun vegna Covid-19 og einn á sjúkrahúsi. 174 eru í sóttkví og 953 í skimunarsóttkví, að því er fram kemur í uppfærðum tölum á covid.is.
Alls voru 583 einkennasýni tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu og Landspítala, 235 sóttkvíar- og handahófssýni og 649 við landamæraskimun.