Enn hefur ekki verið boðað til fyrirtöku í málunum tveimur þar sem skylda til þess að sæta sóttkví í farsóttarhúsi hefur verið kærð.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir undirbýr nú kröfugerð þar sem kærunum er svarað að sögn Ómars R. Valdimarssonar, lögmanns annars þeirra er munu nú láta reyna á lögmæti frelsissviptingarinnar fyrir dómi.
Hann segist gera ráð fyrir að kröfugerðin verði tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en enn ekki vita hvenær.
Þórólfur sagði í samtali við mbl.is í dag að það væri ekki hans að túlka lög eða hvenær verið sé að fara eftir lögum eða reglugerðum en samkvæmt sóttvarnalögum er það sóttvarnalæknir sem er sóknaraðili fyrir dómi þegar sóttkví í farsóttarhúsi er mótmælt.