„Við viljum með þessu láta gott af okkur leiða á Skagaströnd,“ segir Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri en Kaupfélag Skagfirðinga hefur gefið sveitarfélaginu Skagaströnd þrjár húseignir, alls um 4.000 fermetra, sem hafa verið í eigu dótturfélagsins FISK Seafood.
Húseignirnar sem um ræðir eru 600 fermetra skrifstofubygging að Túnbraut 1-3, sem hefur hýst Greiðslustofu Vinnumálastofnunar og skrifstofur sveitarfélagsins, og 3.400 fermetra atvinnuhúsnæði í tveimur byggingum, annars vegar síldarverksmiðjuna á hafnarsvæðinu og hins vegar gömlu rækjuvinnsluna.
Kaupfélagið eignaðist þessar fasteignir árið 2004 með kaupum á Skagstrendingi af eignarhaldsfélagi Eimskips, Burðarási. Viðræður hafa staðið yfir við sveitarfélagið að undanförnu um eignirnar, sem enduðu með því að skrifað var undir gjafaafsal 17. mars síðastliðinn, sem þýðir að sveitarfélagið greiðir ekkert fyrir fasteignirnar.
„Við erum mjög sáttir við hvernig þetta fór og ánægðir með aðkomu sveitarfélagsins, höfum átt gott samstarf við sveitarstjóra um málið. Við vonumst til að þetta geti styrkt sveitarfélagið, sem er að fara í sameiningarviðræður í Austur-Húnavatnssýslu, og þetta húsnæði getur gefið þeim tækifæri til frekari atvinnusköpunar,“ segir Þórólfur.
Í ráðhúsinu að Túnbraut 1-3 fer heilmikil starfsemi fram eins og fyrr greinir. Vinnumálastofnun hefur verið þar í leiguhúsnæði með 20-30 manns í vinnu, auk þess sem skrifstofur sveitarfélagsins eru þar til húsa.
„Það er góð vinnuaðstaða í ráðhúsinu og myndast hefur umgjörð um starfsemi Vinnumálastofnunar. Við vonum að sú stofnun haldi áfram sinni starfsstöð á Skagaströnd, hún skiptir samfélagið miklu máli,“ segir Þórólfur enn fremur.
„Með breytingu á eignarhaldi skapast ýmis sóknarfæri fyrir sveitarfélagið til þess að stuðla að uppbyggingu og styrkingu innviða ásamt því að hlúa að þeirri mikilvægu starfsemi sem nú þegar er starfrækt á Skagaströnd,“ segir á vef sveitarfélagsins um samninginn við Skagfirðinga.
Þar segir enn fremur að fyrsta verkefnið á teikniborði sveitarfélagsins verði að búa 26 starfsmönnum Vinnumálastofnunar betri aðbúnað á Túnbrautinni.
„Mikilvægi þeirrar starfsemi hefur heldur betur sýnt sig á Covid-tímum, en starfsfólk býr yfir gríðarlega mikilvægri þekkingu og reynslu. Í því augnamiði að bæta aðstöðu Greiðslustofu á Skagaströnd til frambúðar hefur á síðustu mánuðum verið unnið að tillögum að breytingu á húsnæðinu. Er það m.a. gert til þess að mæta þörfum vaxandi vinnustaðar þar sem sífellt bætist við starfafjöldann á Greiðslustofu,“ segir á vef sveitarfélagsins.
Breytingar á húsnæðinu að Túnbraut munu einnig taka mið af því að skapa aðstöðu fyrir störf án staðsetningar og aðra opinbera starfsemi ef skapast tækifæri til slíkrar uppbyggingar. Þá nefnir sveitarfélagið að búa þurfi starfsmönnum á skrifstofu þess betri aðstöðu.
Um aðrar byggingar sem KS gefur segir sveitarfélagið að unnið sé að því að finna rækjuvinnslunni og síldarverksmiðjunni hlutverk. Spennandi verði að vinna að þeim verkefnum áfram. Kaupfélagið er með tímabundinn leigusamning á gömlu síldarverksmiðjunni fram í maí 2024 en fram að þeim tíma verður unnið að því að finna húsnæðinu framtíðarverkefni, segir jafnframt á vefnum skagastrond.is.