Í kröfugerð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis er það talið svo að ætlun löggjafans hafi verið að veita ráðherra og sóttvarnalækni tiltekið svigrúm við mat á því hvernig tilhögun sóttkvíar er ráðið til lykta. Þó er fallist á að skyldudvöl í sóttvarnahúsi feli í sér frelsisskerðingu.
Þar er einnig litið svo á að reglugerðin eigi sér lagastoð í 4. mgr. 13. gr. sóttvarnalaga, sem hljóðar svo:
Ef vísbendingar eru um að lýðheilsa sé í yfirvofandi hættu getur ráðherra enn fremur kveðið á um í reglugerð að ferðamenn skuli undirgangast ráðstafanir sem koma í veg fyrir sjúkdóma, aðrar en ónæmisaðgerð, eða varna útbreiðslu þeirra, þ.m.t. einangrun, sóttkví, vöktun og sjúkdómsskimun, svo sem með stroki úr nef- eða munnholi eða annars konar heilbrigðisskoðun sem ekki krefst mikils inngrips.
Þá er talið að hugtakið „sóttvarnahús“ feli ekki í sér tæmandi talningu á þeim tilfellum þar sem yfirvöldum er heimilt að nota sóttvarnahús, líkt og ráða megi af heildarlestri sóttvarnalaga.
Í 13. tl. 1. gr. sóttvarnalaga er sóttvarnahús skilgreint svo:
Sóttvarnahús: Staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.
„Að mati ráðherra og sóknaraðila ganga umræddar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er til að hefta útbreiðslu COVID-19-faraldursins og vernda lýðheilsu. Vistunin varir ekki lengur en nauðsynlegt er til að ljúka sýnatöku af varnaraðila, eða í 5 daga með þeim fyrirvara þó að einangrun tekur við reynist viðkomandi vera með COVID-19,“ segir enn fremur í kröfugerðinni.