Kötturinn Rósalind, sem hefur vanið komur sínar í hinar ýmsu byggingar Háskóla Íslands síðustu árin og er flestum nemendum og starfsfólki vel kunn, er týnd. Síðast sást til hennar á eldgosavakt í Öskju náttúrufræðihúsi í dag.
Þórdís Úlfarsdóttir, eigandi Rósulindar, segir að kisa hafi verið týnd í þrjá daga. Það hafi sést til hennar í Öskju í dag og á Laufásvegi í gær. „Við höfum ekki séð hana síðan á föstudaginn en hún er oft í burtu heilu dagana. En þetta er með því lengsta sem hún hefur verið í burtu,“ segir Þórdís.
„Hún er sennilega í Öskju, hún sást á eldfjallavaktinni þar fyrir fjórum klukkustundum. Við komumst ekki inn því það er læst um helgar, en hún gæti verið þar einhvers staðar. Húsið er mörg hundruð fermetrar svo það er ekki hægt að finna hana auðveldlega. Ef hún er í Öskju núna kemst hún út á morgun þegar fólk mætir í vinnuna,“ segir Þórdís.
Rósalind er týnd. Ef einhver hefur orðið var við hana, vinsamlegast hringið í síma 6161861. Hún er oftast á háskólasvæðinu en sást í gær á Laufásvegi. Hún með rauð-appelsínugult hálsband með teygju.
Posted by Sigrun Ulfarsdottir on Mánudagur, 5. apríl 2021