Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir kvikuna sem nú kemur upp um nýja sprungu norðaustan við Geldingadali koma úr sama kvikugangi og hraunið í Geldingadölum.
„Þegar gosið hófst í Geldingadölum þá er það bara yfir einum punkti ofan á kvikuganginum. Kvikugangurinn teygir sig langt til norðausturs í áttina að Keili og það var alltaf möguleiki að kvikan myndi koma upp á öðrum stað á þeirri línu,“ segir Einar.
Að sögn Einars hefur það verið sviðsmynd frá því að kvikugangurinn myndaðist að önnur sprunga myndi myndast.
Þá segir Einar að ekki sé hægt að útiloka það að það fleiri sprungur muni opnast eftir kvikuganginum.
Flæðið úr nýju sprungunni er þá svipað og var í Geldingadölum að sögn Einars eða um fimm rúmmetrar á sekúndu. Það sem sé öðruvísi hér er að hraunflæðið fer strax niður í gil og þegar það flæðir niður í gilið er hraunflæðið hratt. Síðan kemur hraunið niður í Merardali þar sem er meiri flati og þar dreifi það úr sér.
Jeppaslóði sem fjölmiðlamenn og vísindamenn hafa fengið að nýta sér liggur í Merardölum en þangað rennur hraunið. Einar segist ekki vita til þess að hraunið hafi farið þar yfir en bendir á að það séu þó aðrar leiðir til að fara að hrauninu.