Veronika Steinunn Magnúsdóttir
Einstaklingar úr fjórum herbergjum hafa yfirgefið sóttkvíarhótelið í Þórunnartúni að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, forstöðumanns farsóttarhúsa Rauða krossins.
Skyldudvöl í húsinu var dæmd ólögmæt í héraðsdómi í dag, í máli tólf manns sem höfðu í önnur hús að venda.
Fólk sem hyggst yfirgefa húsið þarf að tilgreina hvar það kýs að halda sóttkví, líkt og farþegar hafa hingað til gert við komuna til landsins í faraldrinum.
Gylfi segir starfsfólk nú undirbúa bréf þar sem gestum er gert ljóst að þeir megi klára sóttkví annars staðar en í sóttvarnahúsinu, líkt og heilbrigðisráðherra tilkynnti að yrði gert í dag.
„Við erum að undirbúa þetta eins hratt og mögulegt er,“ segir hann.
Fá þeir sem dvelja í húsinu leyfi til þess að fara út undir bert loft?
„Það er næsta mál á dagskrá að skoða það. Það er svolítið erfitt þegar við erum með 200 manns í húsi, að skipuleggja útiveru hvers og eins. Þá geta hópar farið að hittast og farþegar sem eru að koma í húsið geta blandast þeim,“ segir hann.