Ný gossprunga opnaðist við eldstöðvarnar í Geldingadölum rétt fyrir hádegi í dag. „Þetta er í framhaldi af gossprungunni sem er búin að vera virk allan tímann. Mér sýnist þetta vera á stað sem var búið að kortleggja nýjar sprungur á,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus.
„Þetta er nú alveg óskaplega lítið, þessi eldur, eiginlega mini-gos. En maður veit aldrei hvað verður, þetta er rétt að byrja. Þetta getur tekið sig upp,“ segir Páll. Að hans mati er þetta sama sprunga og hefur gosið úr undanfarna daga, hún hafi bara teygt sig til norðurs.
Sjá má sprunguna á myndskeiðinu sem fylgir fréttinni, en það voru starfsmenn Heli Austria Iceland sem tóku það og veittu mbl.is góðfúslegt leyfi til birtingar.
Páll segir að sprungan sé án efa hluti af atburðarás síðastliðinna 15 mánaða en þetta hafi allt saman komið þeim dálítið á óvart.
„Það kemur samt ekki á óvart að atburðarásin er ekki búin, þetta endar ekki með því gosi sem er búið að vera í gangi. Það var alveg ljóst frá upphafi. Þetta kemur því ekkert á óvart þannig séð en að þetta hafi farið akkúrat svona, það er kannski nýr flötur á málinu,“ segir Páll Einarsson.