Þorsteinn V. Einarsson, kynjafræðingur og forsprakki samfélagsmiðilsins Karlmennskan, segir að ástæðan fyrir því að fólk sé tilbúið að hlusta á hann og hugmyndir hans um karlmennsku séu að róttækar konur hafi fórnað miklu við að ryðja kerfisbundnum hindrunum úr vegi.
Nú er átaki um „jákvæða karlmennsku“ nýlokið sem var á vegum @karlmennskan, UN Women á Íslandi, Píeta-samtakanna, Stígamóta og námsbrautar í kynjafræði við Háskóla Íslands. Lögð var áhersla á að tala um tilfinningar karla og skoða hvers konar afstaða felst í jákvæðri karlmennsku, gegn ofbeldi og kynbundnu misrétti.
Þorsteinn er meðvitaður um að hann taki mikið pláss og honum þyki það ekki alltaf sanngjarnt. „Þetta er búið að standa yfir í tvær vikur og ég er búinn að fara víða í viðtöl. Ég er alveg svona: ahh sorrí hvað ég er að taka mikið pláss. Þannig að ég er meðvitaður um það að ég fæ þennan rauða dregil, ég fæ meiri athygli og það er hlustað öðruvísi á mig en konurnar sem hafa rutt veginn fyrir mig.“
Þorsteinn er gestur Dóru Júlíu í Dagmálaþætti dagsins. Hægt er að horfa á Dagmál Morgunblaðsins hér.