Ásta Rut Hjartardóttir, jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir að ný gossprunga sem opnaðist í Geldingadölum í dag, hafi verið staðsett á korti.
Ásta segir að staðsetning sprungunnar komi ekki á óvart.
„Í rauninni kemur þetta ekki á óvart. Þetta er svona liggur við í beinu framhaldi af hinni gossprungunni, en það er samt svolítið á milli, þetta er um 500 metrum norðar,“ segir Ásta.
Hún telur það ekki ólíklegt að þriðja sprungan eigi eftir að koma upp og tengja hinar tvær.
„Það er erfitt að segja, en ekkert ólíklegt. Þegar maður sér svona línu er kannski hægt að horfa aðeins á framhaldið, bæði lengra til norðurs og svo þarna á milli,“ segir Ásta.