Eldur kviknaði í vélarbúnaði hjá HS Orku

Orkuver HS Orku í Svartsengi.
Orkuver HS Orku í Svartsengi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldur kviknaði í vélarbúnaði í orkuveri 3 hjá HS Orku í Svartsengi seinnipartinn í dag. Orkuverið var mannlaust þegar eldurinn braust út og var fólki engin hætta búin.

Starfsmenn HS Orku brugðust skjótt við, lokuðu svæðið af og kölluðu til slökkviliðið í Grindavík sem réð niðurlögum eldsins á skömmum tíma, að því er segir í tilkynningu.

Fram kemur að eldurinn hafi verið lítill og einangraður og því lítil hætta á að hann myndi breiðast út.

Ekki er vitað með fullri vissu hver upptök eldsins eru en talið er að lega hafi brotnað í vélinni sem leiddi til þess að kviknaði í. Starfsmenn HS Orku munu í framhaldinu fara yfir málið.

Ekki er gert ráð fyrir því að þetta muni hafa áhrif á framleiðslu HS Orku á raforku eða heitu og köldu vatni að öðru leyti en því að framleiðsla vélar í orkuveri 3 mun stöðvast um tíma á meðan unnið er að úrbótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert