„Það er helst þessi sprunga á milli gosstöðvanna sem þarf að fylgjast með. Þegar gossprungan opnaðist í gær var ekki mikill fyrirvari á því, en þar voru fyrir sprungur á yfirborði sem var búið að kortleggja,“ segir Einar Bessi Gestsson náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is. „Þessar sprungur sem eru þarna á milli gosstöðvanna eru hugsanlega vísbending um að eitthvað komi þar upp með litlum eða engum fyrirvara.“
Einar segir það þó ekki þurfa að vera, en að yfirborðssprungurnar gefi vísbendingar um að kvikugangurinn geti verið þar undir, á milli gosstöðvanna, sem sýni að það sé mikið hættusvæði.
Þá haldi hraunbreiðan í Meradölum áfram að stækka, en vísindamenn frá Veðurstofu Íslands eru á svæðinu, sem lokað er fyrir almenningi, við mælingar á gasmengun.
„Gas safnast saman í lægðir og Meradalur er flatur í botninn og það er spurning um vindaðstæður þar ofan í dalnum og það á eftir að kanna það betur, hvað þarf til að blása gasið þar í burtu, svo vindurinn nái ofan í dalinn.“