„Sóttvörnum hér á Tenerife er sinnt svo til mikillar fyrirmyndar er. Staðan er góð,“ segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals Útsýnar.
Í síðustu viku fóru tvær vélar Icelandair til Kanaríeyja með farþega ferðaskrifstofunnar en áætla má að nú séu á svæðinu á bilinu 700-800 Íslendingar, sem flestir dveljast einmitt á Tenerife.
Þar ræðir um fólk sem hefur komið á svæðið bæði á eigin vegum og í skipulögðum ferðum. Flestir dveljast á hótelum, en margir leigja sér líka annars konar húsnæði.
Við innritun á hótelin á Tenerife þurfa gestir að sýna sóttvarnavottvorð, ekki eldra en þriggja sólarhringa, sem staðfestir að þeir séu án veiru. Einnig er fólk hitamælt, sé talin ástæða til. „Hótelin eru í góðu samstarfi við heilbrigðisþjónustuna. Læknar og hjúkrunarfræðingar koma oft á staðinn og ganga úr skugga um að allt sé í lagi. Fyrir heimför getur fólk tekið próf á hótelinu til að sýna landamæravörðum við heimkomuna til Íslands,“ segir Þórunn í Morgunblaðinu í dag.