Háskólakötturinn Rósalind skilaði sér heim til sín seinnipartinn í gær eftir að hafa verið týndur í þrjá daga.
Rósalind hefur vanið komur sínar í ýmsar byggingar Háskóla Íslands síðustu árin og er flestum nemendum og starfsfólki vel kunn. Sést hafði til hennar í Öskju í gær.
„Hún rölti heim sjálf. Hún ratar alveg heim frá Öskju þar sem hún var síðast á fundi með jarðvísindamönnum,“ segir Þórdís Úlfarsdóttir, eigandi hennar.
„Okkur var mjög létt að fá hana aftur,“ bætir hún við.