Oddur Þórðarson
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að enn sé of snemmt að segja til um hvort smíðað verði nýtt frumvarp um sóttkvíarhótel vegna niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, um að vistun komufarþega frá hááhættusvæðum á sóttkvíarhóteli hafi verið ólögmæt. Þetta segir hún í samtali við mbl.is.
Hún segir að fyrst þurfi að kanna til hlítar fyrir Landsrétti hvaða niðurstaða fæst í málið, því sé ekkert hægt að fullyrða um mögulega frumvarpssmíð strax.
Svandís segir að málið hafi ekki enn verið rætt formlega innan ríkisstjórnarinnar. Þangað til stendur heilbrigðisráðuneytið í ströngu, í samráði við sóttvarnalækni, um hvernig megi bæta framkvæmd þeirra ráðstafana sem nú þegar eru fyrir hendi og nefnir Svandís sóttkví sérstaklega í því samhengi.
Hún segir jafnframt áhugavert að sjá hve margir á sóttkvíarhóteli ákváðu að vera um kyrrt eftir að úrskurður héraðsdóms lá fyrir í gær. Það sé til merkis um þá samstöðu sem ríki á Íslandi um sóttvarnir og aðgerðir í þágu þeirra.
„Þegar ég gríp til aðgerðanna þá byggir það á þeirri afstöðu að þær séu lögmætar. Núna höfum við aðra niðurstöðu frá héraðsdómi, til þess eru dómstólar, til þess að skera úr um slíkan ágreining. Það hefur héraðsdómur nú gert fyrir sitt leyti og sóttvarnalæknir, í samráði við ráðuneytið, hefur ákveðið að kæra það áfram til Landsréttar,“ segir Svandís við mbl.is.