Segja lög um ráðherraábyrgð brotin

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt auglýsingu um tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá ríkjum Evrópusambandsins. Þar er auglýstur tollkvóti vegna tímabílsins 1. maí til 15. september næstkomandi. 

Í auglýsingunni kemur ekkert fram um að ráðuneytið hafi horfið frá því að úthluta kvótanum með útboðsfyrirkomulagi því sem Landsréttur dæmdi ólögmætt vegna þess að það var í andstöðu við stjórnarskrána. 

Félag atvinnurekenda hefur því sent Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, erindi og bent ráðherra á, að taka útboðsgjalds fyrir tollkvóta samkvæmt þessu ólögmæta fyrirkomulagi væri vísvitandi brot á stjórnarskránni og þar með á lögum um ráðherraábyrgð.

Niðurstaða Landsréttar afdráttarlaus 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá FA en þar segir einnig að einróma og afdráttarlaus niðurstaða Landsréttar í máli Ásbjörns Ólafssonar ehf. gegn íslenska ríkinu hafi verið að það fyrirkomulag, sem viðhaft var við útboð á tollkvóta fyrir búvörur á árinu 2018, væri ólögmætt og gengi gegn stjórnarskrá Íslands.

Í tilkynningunni er jafnframt vísað í orðalag í dóminum: „Álagning gjalda þeirra sem málið varðar studdist samkvæmt þessu ekki við lögmæta skattlagningarheimild og var því ógild.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend/Unnur Magna

FA bendir í bréfi sínu til ráðherra á að dómar Landsréttar séu endanlegir og bindandi fyrir málsaðila með þeirri einu undantekningu að sækja megi um áfrýjun þeirra til Hæstaréttar. Sé slík beiðni samþykkt sé málið tekið fyrir í Hæstarétti en þar til nýr dómur er kveðinn upp haldi dómur Landsréttar gildi sínu og bindi, í þessu tilfelli, stjórnvöld.

Um að ræða skýrt ásetningsbrot ráðherra gegn stjórnarskrá 

„Athafnir ráðherra í andstöðu við dóm Landsréttar eru því ekki bara brot gegn grunnreglum réttarríkisins og reglum um þrískiptingu ríkisvalds heldur felst í þeim brot á lögum um ráðherraábyrgð sbr. t.d. a- og c-lið 8. gr. þeirra laga,“ segir í bréfi FA til ráðherra.

„Umrætt fyrirkomulag, sem Landsréttur telur afdráttarlaust að brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, var að frumkvæði ráðherra tekið upp á nýjan leik um síðustu áramót með breytingu á búvörulögum. Í ljósi niðurstöðu Landsréttar er að mati FA óhugsandi að gjaldtaka vegna tollkvótanna geti farið fram að óbreyttu enda liggur fyrir fortakslaus dómur áfrýjunardómstóls um ólögmæti hennar.

FA telur að ráðherra verði að hafa atbeina að því að Alþingi breyti búvörulögum á nýjan leik eða úthluti tollkvótunum án gjalda. Ella er um að ræða skýrt ásetningsbrot ráðherra gegn stjórnarskrá lýðveldisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert