„Mig langar að vita hvers vegna þau voru svona óviðbúin því að einhver myndi leggja fram kæru. Það er eins og sóttvarnalæknir hafi ekki áttað sig almennilega á lögunum og það finnst mér alvarlegt við svona frelsissviptingu,“ segir Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Fór hún fram á að velferðarnefnd kæmi saman um leið og mál nokkurra vistmanna í sóttvarnahúsi voru tekin fyrir í Héraðsdómi. Fundar velferðarnefnd um úrskurðinn og viðbrögð við honum klukkan tíu í dag.
Á fundinum hyggst Halldóra inna heilbrigðisyfirvöld eftir svörum um ferlið í kringum reglugerðarsetninguna:
„Mér finnst þörf á því að vita hvað lá að baki ákvörðuninni og kalla eftir upplýsingum í kringum ferli ákvörðunartökunnar. Það er skortur á upplýsingum,“ segir hún í samtali við mbl.is og hyggst hún þá óska eftir minnisblaði sóttvarnalæknis.
Minnisblað sóttvarnalæknis sem leiddi að reglugerð um skyldudvöl í sóttvarnahúsi hefur ekki verið birt. Mbl.is óskaði eftir minnisblaðinu í samtali við yfirlögfræðing ráðuneytisins, Sigurð Kára Árnason, en ekki gekk það eftir.
Þá finnst Halldóru mikilvægt að farið verði yfir meðalhófið:
„Það er ýmislegt hægt að gera, meira að segja ökklaband væri vægara úrræði en skyldudvöl í farsóttarhúsi,“ segir hún.
Einnig hyggst hún spyrja hvers vegna vistmönnum hafi ekki verið leyft að fara út undir bert loft.
„Meira að segja fólk í gæsluvarðhaldi fær að fá sér frískt loft. Maður hefði talið að það yrði að leyfa fólki að fara út í einhvern tíma á dag,“ segir Halldóra.