Stika nýja gönguleið að gosstöðvunum

Björgunarsveitarmenn á gossvæðinu.
Björgunarsveitarmenn á gossvæðinu. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg munu að öllum líkindum ljúka við að stika nýja gönguleið að gosstöðvunum á Reykjanesskaga á morgun.

Hún kemur sunnanmegin að frá Suðurstrandarvegi og er aðeins lengri en leiðin sem fyrir er, leið A, eða um tveimur kílómetrum, að sögn Guðbrands Arnar Arnarssonar hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Nýja leiðin er aftur á móti auðveldari þar sem hækkunin er jafnari.

Leið A verður einnig betrumbætt svo að fólk sjái nýju gosstöðvarnar sem mynduðust í gær. Hún verður einnig öruggari en verið hefur. Upphafspunktur beggja leiðanna verður sá sami.

„Þær aðgerðir sem er verið að ráðast í lúta að því að lágmarka áhættuna á staðnum bæði út frá nýjum gossprungum sem geta mögulega opnast og líka til að eiga fleiri valkosti upp á mismunandi vindáttir út af gasi,“ segir Guðbrandur Örn.

Guðbrandur Örn Arnarson hjá Landsbjörg.
Guðbrandur Örn Arnarson hjá Landsbjörg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gas langt yfir heilsuverndarmörkum

Hann bendir á mikilvægi þess að fólk fari vel eftir leiðbeiningum varðandi ferðalög á gossvæðið í tengslum við gasið og þær vindáttir sem eru ríkjandi. Hann segir mjög há gildi hafa mælst í gasi sem getur verið mjög óþægilegt til innöndunar og í mörgum tilvikum langt yfir heilsuverndarmörkum. Guðbrandur hvetur fólk til að afla sér upplýsinga áður en lagt er af stað á gossvæðið á vefjum Almannavarna, Safetravel og Veðurstofu Íslands.

„Það er mikilvægt að taka þessar lokanir alvarlega. Það vill enginn vera sá sem fer af stað og fer ekki eftir leiðbeiningum. Það er ekki verið að loka til skemmtunar heldur vegna þess að það er raunveruleg hætta á ferðum.“

Björgunarsveitarmenn að störfum.
Björgunarsveitarmenn að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Byrjað verður í kvöld að stika nýju leiðina og á Guðbrandur von á því að verkefnið klárist á morgun.

30-40 björgunarsveitarmenn hafa verið að störfum á gossvæðinu í dag til að passa upp á að enginn fari þangað enda hefur svæðið verið lokað í allan dag. „Það er ótrúlega ánægjulegt að sjá að langflestir hafa farið eftir tilmælum lögreglunnar,“ greinir hann frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert