Úrskurður geti hleypt sóttvörnum í uppnám

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir úrskurð héraðsdóms um ólögmæti skyldusóttkvíar í sóttvarnahúsi „óheppilegan út frá sóttvarnasjónarmiðum“ og að hann geti sett sóttvarnir hér á landi í uppnám. Þetta sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag.

„Ég tel að ef þessi dómur fær að standa muni líkur á smitum innanlands aukast með möguleika á alvarlegum áhrifum fyrir okkur Íslendinga,“ sagði Þórólfur og nefndi sem dæmi að hugsanlega yrði síður hægt að slaka á aðgerðum innanlands en ella.

Þórólfur tilkynnti á fundinum að hann hefði í samráði við ráðherra ákveðið að úrskurður héraðsdóms, um að skyldusóttkví á sóttkvíarhótelum væri ólögleg, yrði kærður til Landsréttar. Engu að síður hvatti sagði hann mikilvægt að renna lagastoðum undir aðgerðina, en það yrði þá gert með lögum frá Alþingi.

Reglugerð um samkomutakmarkanir innanlands, sem nú er í gildi, rennur út 15. apríl en ekki hefur komið fram hvað tekur við í kjölfarið.

Vænlegast að hlusta áfram á sérfræðinga 

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, sagði þann árangur sem náðst hefur í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn hér á landi ekki vera tilviljun. Hann væri afrakstur þess að hlustað hefur verið á ráð sérfræðinga og þeim fylgt. Vænlegast til áframhaldandi árangurs er að svo verði áfram.

Þótt Rögnvaldur nefndi það ekki sérstaklega var nokkuð ljóst að hann var með hugann við sóttkvíarhótelin. Á fundinum lögðu Rögnvaldur, Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir öll áherslu á mikilvægi þess að lagastoðum yrði rennt undir sóttkvíarhúsin svo hægt væri að skylda þá sem koma til landsins frá svokölluðum dökkrauðum löndum – þar sem staða faraldursins er sem verst – til dvalar þar.

„Sóttvarnir eru í eðli sínu íþyngjandi. Það hafa mjög margir lagt mikið á sig og fært persónulegar fórnir til þess að þetta hafi gengið upp. Fólk hefur neitað sér um samvistir með sínum nánustu og framlínufólk fært fórnir,“ sagði Rögnvaldur. Hann bætti við að margir sem fengið hefðu veiruna væru enn að glíma við afleiðingar hennar, löngu síðar, og því væri þess virði að leggja mikið á sig til að halda henni í skefjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert