Um 150 metra löng yfirborðssprunga myndaðist á milli gömlu og nýju gossprungnanna í nótt og er vel fylgst með umbreytingum á svæðinu. Veðurstofan fékk tilkynningu frá almannavörnum um að björgunarsveitarmenn í Grindavík hefðu orðið varir við jarðsig á svæðinu um klukkan eitt í nótt.
Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur segir í samtali við mbl.is að jarðsigið sé um einn metri.
Ljóst er að miklar umbreytingar eru á svæðinu og það alls ekki öruggt. Lokað er fyrir umferð á svæðinu og mun Veðurstofan funda með viðbragðsaðilum á Suðurnesjum klukkan 9 og klukkan 10 til að leggja frekara mat á stöðuna.
„Það er einhver hreyfing á svæðinu og full ástæða til að fara með varúð.“
Brennisteinsmengunar gæti orðið vart í Ölfusi í dag miðað við þá spá sem gerð var í gær en von er á nýrri um klukkan 9.