Ari Trausti vísar gagnrýni á bug

Ari Trausti Guðmundsson á Alþingi.
Ari Trausti Guðmundsson á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, hefur vísað á bug gagnrýni þess efnis að hann og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafi fengið að heimsækja gosstöðvarnar á Reykjanesskaga í vísindaskyni í gærkvöldi eftir að svæðið var lokað almenningi.

Báðir eru þeir menntaðir jarðvísindamenn. Ari Trausti lauk framhaldsnámi í jarðvísindum frá Háskóla Íslands og hefur unnið við ýmis störf tengd sínu fagi í gegnum árin. Steingrímur lauk B.Sc.-prófi í jarðfræði frá HÍ en starfaði síðast við jarðfræði á árunum 1982 til 1983.

Gengur fram af honum 

Ari Trausti skrifar á facebook-síðu sína að stundum gangi fram af honum hvernig skilningur fólks sé á störfum hans og hve fljótfærnin getur grasserað. „Í vísindaskyni“ geti táknað mælingar og beinar rannsóknarathafnir en líka margt annað.

Hann segir að væntanleg bók hans og Ragnars Th. Sigurðarsonar hjá Forlaginu sé á bið, m.a. til að hægt sé að koma nýjustu umbrotunum með í útgáfuna. Einnig sé hann höfundur mikils efnis á eldfjalla- og skjálftasýningunni á Hvolsvelli og bæta þurfi við efni vegna hennar. 

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ari Trausti bætir við að hann hafi tekið þátt í að semja, breyta og fá samþykkta þingsályktun varðandi endurbætta nálgun á fjármögnun viðbragða við og forvörnum gegn náttúruvá og endurbætta áætlun um rannsóknarþörf. Til þess að fylgja henni áfram þurfi hann að skoða vettvang með augum vísindamannsins.

„Svæðið er ekki lokað jarðvísindamönnum, sama hver prófgráðan er, og sérfræðingum öðrum sem hafa erindi þangað, hvorki ungum né gömlum, enda sennilega yfir tugur þeirra að vinna þarna í gær, auk fjölmiðlafólks. Sumt af mínum störfum má líka tengja fjölmiðlun,“ skrifar Ari Trausti.

„Ég hegðaði mér þarna á sama hátt og ég gerði áður en ég settist á þing við að fylgjast með þróun minna fræða, 20-30 eldgosum, safna efni til að miðla á marga vegu og leggja í púkk umræðu um jarðfræði á fræðilegan hátt,“ bætir hann við.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert