Stærsta hjólreiðakeppni landsins, Síminn Cyclothon, snýr aftur í sumar, helgina 22.-25. júní að því er segir í fréttatilkynningu.
„Í keppninni er bæði keppt í einstaklings- og liðakeppni með boðsveitarformi hringinn í kringum landið, samtals 1.358 kílómetra á undir 72 klukkustundum,“ segir í tilkynningunni.
Skráningu í keppnina lýkur mánudaginn 3. maí og hefur fjöldi liða nú þegar skráð sig til leiks. Fjölda þátttakenda í hverju liði hefur þá verið breytt og nú geta allt að átta manns myndað saman lið.
Keppninni var frestað árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins en í ár hafa verið gerðar frekari ráðstafanir svo keppnin geti farið fram.
„Allt bendir til þess að bæði keppni og æfingar geti farið fram þrátt fyrir að núverandi samkomutakmarkanir verði áfram í gildi í lok júní. Skipuleggjendur hafa gert ráðstafanir sem gera ræsingu mögulega í fjöldatakmörkun, auk þess sem keppnin ábyrgist fulla endurgreiðslu þátttökugjalds ef svo ólíklega vill til að henni verði frestað,“ segir í tilkynningunni.
Frekari upplýsingar um keppnina er að finna á vef Símans Cyclothon.