Píetasamtökin opna útibú á Akureyri

Birgir Örn Steinarsson verður forstöðumaður Píeta á Akureyri.
Birgir Örn Steinarsson verður forstöðumaður Píeta á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Píetasamtökin ætla að færa út kvíarnar í sumar og opna sitt fyrsta útibú á landsbyggðinni. Það hefur verið á stefnuskrá samtakana frá upphafi að opna Píetahús í öllum landsfjórðungum og verður fyrsta skrefið að því tekið á Akureyri þann 1. júlí.  

Birgir Örn Steinarsson, sálfræðingur hjá Píetasamtökunum og listamaður, mun sinna stöðu forstöðumanns á Akureyri að því er fram kemur í tilkynningu frá samtökunum. Píeta eru félagasamtök sem rekin eru alfarið á styrkjum þar sem öll innkoma fer í starfsemina sjálfa. Tekist hefur að tryggja rekstur Píeta á Akureyri í 12 mánuði. 

Birgir hefur starfað sem sálfræðingur fyrir Píeta í um þrjú ár. Hann gegndi einnig tímabundið stöðu fagstjóra samtakanna eða þar til Þórunn Finnsdóttir sálfræðingur tók við í febrúar á þessu ári.  

„Birgir er Píetamaður inn að hjarta og á eftir að vinna gott starf fyrir íbúa Norðurlands, það er ég fullviss um,“ segir Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta. 

„Þörfin fyrir þjónustu samtakanna er alls staðar og höfum við mætt mikilli velvild og stuðningi frá Akureyrarbæ í tengslum við undirbúningsvinnuna. Því var ákveðið að opna útibú á Akureyri. 

Píeta samtökin á Íslandi eru forvarnarsamtök gegn sjálfsvígum og sjálfskaða sem starfa eftir hugmyndafræði samnefndra samtaka á Írlandi. Þau bjóða fólki 18 ára og eldra sem glíma við sjálfsvígshugsanir upp á aðstoð frá fagfólki án endurgjalds. 

Einnig er þeim sem hafa misst ástvin eða búa með einstaklingi í sjálfsvígshættu boðinn stuðningur. Píetasíminn er opinn allan sólarhringinn, 552-2218. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert