Lögreglan á Suðurnesjum birti fyrir skömmu færslu á facebook-síðu sinni þess efnis að mikil gasmengun mælist nú á svæðinu í kringum gosstöðvarnar. Vegna þessa sé verið að rýma svæðið.
Lögreglan biður alla þá sem eru á svæðinu að yfirgefa það sem allra fyrst.
Sigurður Bergmann, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, áætlar að miðað við bílafjölda á bílastæðinu séu um 350-400 manns á svæðinu.
Sigurður segir þó að vel gangi að rýma svæðið. Búið sé að rýma svæðið við gígana svo fólk er lagt af stað niður gönguleiðina.
„Þetta eru hættuleg gildi sem eru að mælast þarna, það er lygnt og það er enn þá verra að eiga við gasið þá,“ segir Sigurður.
Aðspurður segir Sigurður að miðað við veðurspána gæti mökkinn lagt yfir Grindavík á miðnætti.
Mikilvægar upplýsingar. Mjög mikil gasmengun mælist nú á gos svæðinu og erum við því að rýma svæðið. Við biðjum þá sem eru á svæðinu að yfirgefa það sem allra fyrst.
Posted by Lögreglan á Suðurnesjum on Miðvikudagur, 7. apríl 2021