Sæmilega ánægð í þröngri stöðu

Mygluviðgerðir við Korpuskóla.
Mygluviðgerðir við Korpuskóla. mbl.is/Árni Sæberg

„Framkvæmdirnar á Korpuskóla voru kynntar fyrir okkur af sérfræðingi Eflu og við erum ánægð með hennar aðkomu og treystum henni fyrir verkinu. Hún lýsti því yfir að það hefði náðst fyrir allar rakaskemmdir sem fundust í íverurýmum barnanna og við erum sátt við það.“

Þetta segir Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla, í samtali við Morgunblaðið um lagfæringar sem gerðar hafa verið á húsnæði Korpuskóla eftir að í ljós kom að þar væru rakaskemmdir og mygla.

Kennsla nemenda Fossvogsskóla hefst í húsnæði Korpuskóla í dag eftir þrálát mygluvandræði í húsnæði Fossvogsskóla síðan árið 2018.

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sérfræðingur Eflu verkfræðistofu, hefur farið fyrir rannsóknum Eflu á húsnæði Korpuskóla. Búið er að ráðast í lagfæringar á húsnæði Korpuskóla og telur Reykjavíkurborg óhætt að hefja kennslu þar. Lagfæringarnar voru kynntar foreldrum nemenda á fjarfundi með fulltrúum skóla- og frístundasviðs og Sylgju frá Eflu.

Foreldri barns í Fossvogsskóla spurði Sylgju að því hvort hún væri tilbúin til þess að dvelja meirihluta úr degi, dag eftir dag, í Korpuskóla eftir lagfæringarnar. Sylgja svaraði því játandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert