Styrkur svifryks mældist 102 míkrógrömm á rúmmetra í gærmorgun og styrkur köfnunarefnisdíoxíðs var 28 míkrógrömm á rúmmetra. Svipaða sögu var að segja frá mælistöðinni við Bústaðaveg og Háaleitisbraut.
Þar var styrkur svifryks 104 míkrógrömm á rúmmetra. Þetta er langt yfir sólarhringsheilsuverndarmörkum en þau eru 50 míkrógrömm á rúmmetra fyrir svifryk (PM10). Mörkin fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra.
Í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er rakið að köfnunarefnisdíoxíðmengun komi frá útblæstri bifreiða og sé hún mest á morgnana og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi. Uppspretta svifryks er uppspænt malbik, jarðvegsagnir, salt og sót úr útblæstri bifreiða, að því er segir í tilkynningunni en í henni er fólk hvatt til að skilja bíla sína eftir heima í dag og nýta aðra ferðamáta til og frá vinnu, til að fólk sem er viðkvæmt í öndunarfærum og börn geti notið útivistar betur.
Í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins segir að búast megi við svipuðum skilyrðum í borginni milli klukkan níu og tíu í dag en eftir hádegi muni snjóa. Um hefðbundið svifryk sé að ræða og hafi það ekkert með eldgosið á Reykjanesi að gera, enda hafi vindáttin þaðan ekki legið til borgarinnar.