Þriðja sprungan opnaðist á miðnætti á milli hinna tveggja eldanna á Reykjanesi að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. Nýja sprungan opnaðist beint fyrir framan vefmyndavél mbl.is og er hægt að sjá nýja hraunflauminn beint hér fyrir neðan.
Einar segir að björgunarsveitarfólk hafi séð á sama svæði í gær sig í landslaginu en þetta er í 420 metra norðan við upptökin í Geldingadölum. Hraunið rennur frá nýju sprungunni ofan í Geldingadali.
Að sögn Einars virðist þetta vera lítil opnun en miðað við það sem björgunarsveitarfólkið sá í gær er þetta á um 150 metra svæði. Talið er líklegt að þetta sé á þeim stað og styðja myndir úr vefmyndavélum það. Nýi jarðeldurinn nær ekki á milli gíganna tveggja eins og er.
Svæðið er lokað núna en átti að opna klukkan sex í fyrramálið. Metið verður með morgninum hvort það er hægt að sögn Einars.
Í nótt gengur í suðaustan 8-13, en eftir hádegi á morgun dregur talsvert úr vindi. Gasmengun berst til norðurs og norðausturs frá gosstöðvunum, og seint í nótt og á morgun eru líkur á óhollu lofti í byggð á norðanverðum Reykjanesskaga. Snýst í vaxandi norðaustanátt seint annað kvöld og þá gæti mengun borist yfir Grindavík.