62 nemendur í 4. bekk Öldutúnsskóla í Hafnarfirði og þrír starfsmenn þurfa í sóttkví vegna smits sem kom upp hjá nemanda í 4. bekk. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Valdimar Víðissyni, skólastjóra Öldutúnsskóla.
Allir sem sendir hafa verið í sóttkví fara í skimun næstkomandi miðvikudag, 14. apríl. Fjölskyldum barna í 4. bekk hefur verið gert viðvart.
Aðeins eru tvær vikur síðan 180 nemendur á unglingastigi Öldutúnsskóla og 20 starfsmenn voru sendir í sóttkví vegna kórónuveirusmits. Það smit leiddi af sér smit í Víðisstaðaskóla, einnig í Hafnarfirði, þar sem um 230 manns fóru í sóttkví, 209 nemendur á unglingastigi og um 20 starfsmenn.
Þá voru nemendur í 2. og 3. bekk í Öldutúnsskóla sendir í sóttkví seint í nóvember á seinasta ári.