Gríðarlega skiptar skoðanir eru innan velferðarnefndar Alþingis um hvort eðlilegt sé að trúnaður ríki um gögn sem tengjast ákvarðanatökum stjórnvalda varðandi sóttvarnir.
Þetta segir Helga Vala Helgasdóttir, formaður velferðarnefndar. Fundur nefndarinnar fór fram í morgun og var hann örstuttur að hennar sögn.
„Við erum að reyna að fá afhent gögn sem eru grundvöllur þeirrar ákvarðanatöku sem hefur verið varðandi sóttvarnir. Við fengum það svar frá ráðuneytinu að um þau ríkti trúnaður og að við þyrftum að lýsa yfir ákveðnum trúnaði varðandi það,“ segir Helga Vala, spurð um hvað fór fram á fundinum.
„Það eru gríðarlega skiptar skoðanir innan velferðarnefndar varðandi það hvort það sé eðlilegt. Það eru ríkir almannahagsmunir þarna og við þurfum að geta tjáð okkur um það sem þarna gengur á,“ bætir hún við og segir að kallað hafi verið ýmsum upplýsingum.
Í þessum pakka segir hún að kallað hafi verið eftir minnisblaði ráðherra og minnisblaði lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins. „Það er ekki hægt að sjá að þar séu neinar persónuupplýsingar, viðkvæm viðskiptasambönd eða þjóðaröryggi sem réttlætir að þingmenn séu múlbundnir varðandi upplýsingar," greinir Helga Vala frá.
Samkomulag var um það innan nefndarinnar að inna heilbrigðisráðuneytið eftir þessu og spyrja af hverju þau beiti ekki 11. grein upplýsingalaga þar sem kemur fram að stjórnvöldum sé frjálst að aflétta trúnaði um mikilvæg mál þó að þau hafi verið rædd á ríkisstjórnarfundi. Gögn sem þar eru lögð fram eru undanþegin upplýsingalögum nema ráðherrar ákveði annað.
Helga Vala segir að næsti fundur nefndarinnar gæti orðið á morgun. Ef nefndin fær þessi gögn og ráðuneytinu snýst hugur verður það líklega ekki fyrr en á mánudag. Sjálf segist hún vonast eftir því að heilbrigðisráðherra útbúi nýtt frumvarp í kjölfar niðurstöðu Landsréttar í gær þar sem kæru sóttvarnalæknis vegna úrskurðar héraðsdóms um að ólögmætt sé að skylda fólk í sóttvarnahús var vísað frá.