Hraunflæðið um 50% meira en áður

Ekkert lát er á gosinu á Reykjanesskaga.
Ekkert lát er á gosinu á Reykjanesskaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heildarrennsli hrauns frá öllum gígum gosstöðvanna í og við Geldingadali nam um átta rúmmetrum á sekúndu undanfarinn sólarhring. Þetta sýna niðurstöður jarðvísindamanna sem byggðar eru á gögnum sem fengust með flugi í hádeginu í dag.

Teknar voru loftmyndir úr flugvél Garðaflugs með Hasselblad-myndavél Náttúrufræðistofnunar og unnin eftir þeim landlíkön af hraununum í Geldingadölum, Meradölum og sprungunni sem myndaðist um miðnætti 6. apríl.

Rennslið samkvæmt þessum mælingum er um 50% meira en var lengst af í gosinu.

Flatarmálið tvöfaldast

Nyrsti gígurinn mælist drýgstur, með um tvo þriðju af heildarrennslinu, en einn þriðji skiptist nokkuð jafnt á milli eldri gosstöðvanna í Geldingadölum og nýjustu sprungunnar sem liggur þar á milli.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jarðvísindastofnun.

Flatarmál hrauns hefur um það bil tvöfaldast á síðustu tveimur sólarhringum, og heildarrúmmál orðið tæplega níu milljónir rúmmetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka