Mennirnir tveir, sem leitað var eftir að þeir týndust við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga í kvöld, eru komnir í leitirnar.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is komust þeir sjálfir úr ógöngum sínum og hittu fyrir björgunarsveitarmenn, sem þá höfðu verið kallaðir út til leitarinnar.
Heimildir mbl.is herma að um sé að ræða tvo belgíska ferðamenn.
Útkallið barst rétt fyrir klukkan 22 í kvöld. Mennirnir tveir náðu sjálfir að hringja í Neyðarlínuna og óska eftir aðstoð, sagði í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg fyrr í kvöld.
Þeir hópar björgunarsveitarfólks og lögreglu sem voru á svæðinu hófu strax leit um leið og meiri mannskapur var kallaður út.