Ný reglugerð frá heilbrigðisráðherra um tilhögun sóttkvíar og heimasóttkvíar tekur gildi á miðnætti. Í henni eru skýrari kröfur gerðar um skilyrði fyrir heimasóttkví varðandi húsnæði og umgengnisreglur.
Með nýju fyrirkomulagi skulu þau sem ekki geta uppfyllt ný skilyrði fyrir heimasóttkví heima fyrir dvelja í farsóttarhúsi. Dvölin verður endurgjaldslaus.
Nýja reglugerðin byggist á tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Eldri reglugerð þar sem skylda er lögð á einstaklinga sem dvalið hafa á hááhættusvæðum til að dvelja í sóttkví í farsóttarhúsi fellur á brott við gildistöku nýrrar reglugerðar á morgun.
Fram kemur í tilkynningu frá stjórnarráðinu að í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra telji hann ófullnægjandi fylgni við reglur um heimasóttkví eina helstu ógn við núverandi smitvarnir á landamærum Íslands og að umfang bólusetningar hér á landi sé ekki nægt til að koma í veg fyrir útbreiðslu faraldursins.
Aðrar breytingar sem verða á fyrirkomulagi frá og með morgundeginum eru að sömu reglur munu gilda um alla, sama hvaðan þeir koma.
Fólki er heimilt að vera í heimasóttkví uppfylli það kröfur um heimasóttkví. Í því felst að einstaklingur skuli vera einn á dvalarstað en ef fleiri dveljast þar þurfa þeir að sæta öllum sömu skilyrðum sóttkvíar. Þeir sem ekki geta dvalið í heimasóttkví sem uppfyllir skilyrði sóttvarnalæknis þurfa að dvelja í sóttvarnahúsi.
Gerist einstaklingur uppvís að því að brjóta heimasóttkví getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli ljúka sóttkví í sóttvarnahúsi.
Kjósi fólk að dvelja í farsóttarhúsi verður dvölin, sem fyrr segir, endurgjaldslaus. Þá verður fólki sem þar dvelur gert kleift að að njóta útiveru og sérstakt tillit verður tekið til barna, s.s. varðandi útiveru og annan aðbúnað.
Börn fædd 2005 og síðar skulu fara í sýnatöku á landamærunum. Ferðist barn með einstaklingi sem skylt er að sæta sóttkví dvelur barnið þar með honum og losnar úr sóttkví ef síðara sýni úr samferðamanni er neikvætt. Ef samferðamaðurinn er undanþeginn sóttkví er barnið það sömuleiðis. Barn sem ferðast eitt þarf ekki að fara í sóttkví.
Einstaklingar með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu skulu einnig vera skimaðir við komu til landsins. Þeir þurfa ekki að sæta sóttkví.
Þá hafa sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra beint tillögum og óskum að ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra, um að eftirlit með fólki í heimasóttkví verði aukið og hærri sektum við brotum á því beitt.