Enn er ekki ljóst hvort fólk sem fékk bólusetningu með bóluefni AstraZeneca, en er undir aldursviðmiðum, fái aðra sprautu af efninu þegar þar að kemur. Forstjóri Lyfjastofnunar segir að nú séu heilbrigðisyfirvöld víða um heim að velta þessu fyrir sér. Verkefnastjóri hjá farsóttarnefnd Landspítala segir að nokkurrar óþreyju gæti hjá þeim 370 starfsmönnum spítalans sem hafa fengið eina sprautu af bóluefninu.
„Það er í höndum sóttvarnayfirvalda og Lyfjastofnunar að ákveða hvað verði gert við þann hóp. Það gætir nokkurrar óþreyju hjá þeim að fá niðurstöðu í það mál,“ segir Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri hjá farsóttarnefnd Landspítala.
Enn á eftir að bólusetja 250-300 starfsmenn Landspítala gegn Covid-19 en mikill meirihluti starfsmanna hefur fengið bólusetningu. Starfsmenn Landspítala eru rúmlega 6.000 talsins.
Hlé var gert á notkun bóluefnis AstraZeneca í marsmánuði en í þeim mánuði ætlaði Landspítali einmitt að ná að koma öllum starfsmönnum í bólusetningarferli með bóluefni AstraZeneca. Nú er notkun efnisins einungis heimil fyrir 70 ára og eldri. Hver einstaklingur þarf tvo skammta af bóluefninu til þess að öðlast fulla bólusetningu.
„Það eru allir að velta þessu fyrir sér, ekki bara hér á Íslandi. Það var ekki byrjað að bólusetja með AstraZeneca fyrr en í mars hjá okkur, þannig að það er svolítið andrými í það. Ég býst við að það verði horft til þess hvað þjóðirnar í kringum okkur gera, sérstaklega Bretar. Þeir hafa náttúrlega bólusett 25 milljónir með AstraZeneca, eru með mestan fjölda og byrjuðu snemma á AstraZeneca,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Hildur segir ekki vitað hvenær Landspítali fái næst bóluefni en það skýrist fljótlega. Núna er helst unnið að bólusetningu inniliggjandi sjúklinga.
Þá hefur Landspítali óskað eftir bóluefni gegn Covid-19 fyrir sumarafleysingafólk en 800 manns starfa í sumarafleysingum á ári hverju.