„Þetta verður bara flóknara og flóknara“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Svæðið við gosstöðvarnar var opnað klukkan 6 í morgun en rýma þurfti svæðið vegna gasmengunar í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er norðaustan 10-15 m/s og líklegt að gas mælist í Grindavík í dag.

Kort/Veðurstofa Íslands

Engar breytingar urðu á gosinu í nótt en áfram flæðir hraun úr þremur sprungum í Geldinga- og Meradölum.

„Þetta verður bara flóknara og flóknara,“ sagði Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, um framvindu eldgossins í Fagradalsfjalli í samtali við Morgunblaðið.

„Sprungurnar sem gýs á núna mynduðust eiginlega samfara fyrsta gosinu. Þetta er að hluta til á gömlum misgengjum,“ sagði Páll. Hann sagði að mælingar á hraunmassanum muni leiða í ljós hve mikið kemur upp af kviku. Nýjustu mælingar benda til þess að kvikuframleiðsla í eldgosinu hafi verið nokkuð jöfn frá byrjun. Tilkoma nýju sprungnanna hefur því væntanlega dregið úr kvikuflæðinu í syðsta og elsta eldvarpinu í Geldingadölum.

„Þetta á eftir að koma betur í ljós eftir því sem fleiri mælingar eru gerðar og yfir lengra tímabil,“ sagði Páll. Hann sagði að atburðarásin sem nú stendur yfir á Reykjanesskaga verði sífellt merkilegri eftir því sem tíminn líður. Vísindamenn eigi fullt í fangi með að fylgjast með framvindunni. „Ég held að enginn reyni lengur að spá fyrir um hvað kann að gerast,“ sagði Páll í samtali við Morgunblaðið í gær. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert