Fjöldi kórónuveirusmita er annaðhvort vaxandi, og stefnir á veldisvöxt, eða nálgast núll og allir hljóta að vera sammála um að mun æskilegra sé að smitum fækki. Hins vegar sé óraunhæft að búast við fullkomlega veirufríu samfélagi.
Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, eftir ríkisstjórnarfund í hádeginu
„Fólk talar um þetta eins og tvær ólíkar stefnur, að fletja út kúrfuna og stefna að veirufríu samfélagi. Ég held að þegar betur er að gáð sé þetta ekki alveg svo einfalt,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is í kuldanum á Tjarnargötunni.
„Staðreyndin er sú að við höfum engin tæki eða tól til að stilla fjölda smita í landinu við einhverja tölu sem við teljum okkur geta búið við, eins og þegar við stillum hita í heimahúsi á 21 gráðu. Þetta getum við ekki gert,“ sagði Bjarni.
Annaðhvort stefni smitin í veldisvöxt eða þeim fækki og þau nálgist núll.
„Það er það sem ég held að menn eigi við þegar rætt er um að við ætlum að reyna að nálgast veirufrítt samfélag. Það hljóta allir að viðurkenna að náum aldrei að fullu veirufríu samfélagi.“
Bjarni sagði að Svandís Svavarsdótir heilbrigðisráðherra hefði svarað niðurstöðu Héraðsóms Reykjavíkur um ólögmæti reglugerðar um sóttkví með nýrri reglugerð og honum finnst það ágætlega gert.
„Það er auðvitað ekki gott að við útfærslu á síðustu reglugerð skyldum við rekast á ramma laganna en þetta er mjög vandasamt verk; að útfæra markmið um sóttvarnir og vera alls staðar í samræmi við lagatextann. Ég ætla að virða ráðherranum það til betri vegar að hafa gert þetta svona, að menn hafi bara verið í góðri trú að þetta stæðist og nú er bara fengin niðurstaða og við höldum áfram.“
Spurður segir Bjarni að Svandís njóti áfram trausts innan ríkisstjórnarinnar.
Bjarni kveðst hafa orðið var við óþolinmæði vegna sóttvarnaaðgerða síðustu daga, bæði innan flokks og utan.
„Margir spyrja sig hvers vegna sé þörf á öllum þeim ráðstöfunum sem eru í gildi þegar jafn fá smit eru í samfélaginu og raun ber vitni. Um að snýst umræðan, hvort þörf sé á jafn miklum takmörkunum innanlands og við sjáum þegar smitin eru svona fá. Það er í raun og veru kjarni þessarar umræðu og þar getum við meðal annars byggt á reynslunni. Einstök samfélagssmit geta mjög hratt orðið að miklu vandamáli og þess vegna hef ég verið hliðhollur því að fara varlega. Það hefur reynst okkur vel heilt yfir að fara að ráðum sóttvarnayfirvalda en það þýðir ekki að það sé ekki hægt að spyrja spurninga.“