Furða sig á „inngripi“ yfirvalda í Vogabyggð

Vogabyggð. Uppbygging hverfisins gengur vel og verður það „frábært íbúðasvæði“ …
Vogabyggð. Uppbygging hverfisins gengur vel og verður það „frábært íbúðasvæði“ þegar fram líða stundir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst þetta skrýtin forræðishyggja. Þarna er verið að ráðskast með það hvernig fólk á að hafa reitina sína,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó og íbúi í Vogabyggð.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær hefur Reykjavíkurborg hafnað ósk ÞG íbúða um að felld verði niður kvöð í skipulagi hins nýja hverfis Vogabyggðar um gróðurþekjur og berjarunna innan sérafnotareita/einkagarða íbúða í hverfinu. Guðmundur Heiðar vakti máls á þessum skilmálum borgarinnar í facebookfærslu í byrjun árs og vöktu fréttir af málinu mikla athygli. Morgunblaðið hefur heyrt af fleiri íbúum í hverfinu sem eru ósáttir vegna þessa.

Í samtali í Morgunblaðinu í dag segir Guðmundur Heiðar að hann sé ósammála því sem borgin hafi lýst yfir að ekki sé um íþyngjandi skilmála að ræða. Umræddur grasblettur verði pínulítill og nýtist sama og ekkert. Rök um heildarútlit haldi að hans mati ekki því enginn muni sjá umræddan blett og runna nema íbúarnir sjálfir þar eð garðurinn sé girtur af. Ekki hefur enn verið lagt gras eða settur niður berjarunni hjá Guðmundi og fjölskyldu hans og hann kveðst ekki vita hver lending í málinu verður. „Við ætlum bara að melta þetta og sjá hvaða möguleikar eru í stöðunni þegar fram líða stundir.“

Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verktaka, segir í samtali við Morgunblaðið að beiðni fyrirtækisins hafi verið sett fram í samræmi við óskir viðskiptavina þess. Fyrirtækið vilji mæta óskum kaupenda og skila eins góðri vöru og hægt er til þeirra.

„Persónulega finnst mér þetta einkennileg kvöð. Maður getur auðvitað ekki annað en velt því fyrir sér hvað skipulagsyfirvöldum gengur til. Ef fólk kaupir sér íbúð og má ekki fjarlægja berjarunna eða hafa pallinn sinn eins og það kýs sjálft, hvað kemur þá næst? Ætla yfirvöld að skipa fyrir um lágmarksfjölda á pottaplöntum inni hjá fólki eða hvað á að vera í matinn á þriðjudögum? Mér finnst þetta frekar einkennilegt inngrip gagnvart íbúum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert