Hafa tryggt leigu á öðru hóteli

Sóttkvíarhótel við Þórunnartún.
Sóttkvíarhótel við Þórunnartún. mbl.is/Árni Sæberg

Tæplega 220 einstaklingar dvelja nú á sóttkvíarhótelinu í Þórunnartúni að sögn Gunnlaugs Braga Björnssonar, upplýsingafulltrúa Rauða krossins. Hann benti þó á að enn ættu farþegar eftir að koma úr síðustu vélinni sem lenti á Keflavíkurflugvelli í kvöld, en þaðan gæti komið töluverður fjöldi farþega.

„Við erum ekki að fylla húsið í kvöld eins og kannski einhverjar spár sögðu að myndi mögulega gerast en miðað við spár er ekki ólíklegt að það gerist nú samt um helgina,“ segir Gunnlaugur og bendir á að 4 eða 5 flugvélar komi til landsins á morgun og 8 eða 9 farþegaflug á sunnudaginn.

„Það er bara svo erfitt að spá fyrir um það hvað í rauninni eru að koma margir úr vélunum og hversu margir koma til okkar eða hversu margir hafa komið sér upp öðrum úrræðum til að sinna sinni sóttkví,“ segir Gunnlaugur.

Gunnlaugur segir Sjúkratryggingar Íslands vera búnar að tryggja leigu á öðru hóteli ef hótelið í Þórunnartúni skyldi fyllast en ekki er búið að gefa upp hvaða hótel það er.  

Þá er Rauði krossinn að vinna í því að vera tilbúinn með mannskap ef kæmi til þess að opna þyrfti annað hótel.

Búið að skila inn tillögum til sóttvarnalæknis

Gunnlaugur segir Rauða krossinn ekki hafa treyst sér til að uppfylla nýja reglugerð sem tók gildi á miðnætti án þess að fórna sóttvörnum en búið sé að skila inn tillögum til sóttvarnalæknis um það hvernig þessu geti verið háttað.

„Það er í rauninni bara verið að leita allra leiða svo það sé hægt að framfylgja reglugerðinni en í leiðinni koma í veg fyrir samgang á milli fólks og tryggja allar sóttvarnir,“ segir Gunnlaugur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert