Hefði hæglega getað leitt til hópsýkingar

„Á þeirri viku sem liðin er frá opnun sóttkvíarhótelsins við Þórunnartún hafa nokkur smit greinst á meðal gesta þess. Hefði sóttvörnum hússins verið ábótavant eða samgangur verið á milli gesta, er ljóst að þessi smit hefðu hæglega getað leitt til hópsýkingar. Slíkt hefði getað sett hluta starfsfólks hótelsins í sóttkví og orðið til þess að lengja sóttkví annarra gesta, en einungis örfáir framlínustarfsmenn Rauða krossins hafa hlotið bólusetningu,“ segir í tilkynningu frá Rauða krossinum sem send var á fjölmiðla í gærkvöldi vegna nýrrar reglugerðar um dvöl í sóttkví.

Þar kemur fram að ljós sé að reglugerðin boðar miklar breytingar hvað varðar sóttvarnahús fyrir ferðafólk, eða svokölluð sóttkvíarhótel, en hún kveður m.a. á um að öllu ferðafólki bjóðist endurgjaldslaus dvöl á sóttkvíarhóteli óháð hvaðan það kemur og að gestir sóttkvíarhótela geti notið útivistar.

„Á undanförnu ári hefur starfsfólk Rauða krossins öðlast mikla reynslu af sóttvörnum og þjónustu við einstaklinga í sóttkví og einangrun. Lykilatriðið í að tryggja öryggi allra þeirra sem dvelja á sóttkvíarhóteli hverju sinni er að lágmarka umgang gesta um sameiginleg svæði eins og fremst er unnt. Þegar umgangur er nauðsynlegur, til dæmis við innritun, sýnatöku og útskrift, er nauðsynlegt að sótthreinsa sameiginleg svæði og alla snertifleti,“ segir enn fremur í tilkynningu Rauða krossins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert