Afar litlu mátti muna þegar eldur logaði í fjórum bifreiðum á sama tíma á iðnaðarsvæðinu á Esjumelum í nótt. Allt bendir til þess að kveikt hafi verið í bifreiðunum.
Að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var tilkynnt um eldinn á fjórða tímanum í nótt og var talsverður viðbúnaður vegna eldsvoðans. Slökkvibílar af tveimur stöðvum, Mosfellsbæ og Árbæ, voru sendir á vettvang og tók um klukkustund að slökkva eldinn en afar litlu mátti muna að eldur bærist í nærliggjandi byggingar.
Spurður út í möguleg eldsupptök segir varðstjórinn að líklegast hafi verið kveikt í bifreiðunum enda afar sjaldgæft að kvikni í fjórum bifreiðum á sama tíma. Auk þessa útkalls fór slökkviliðið í fimm útköll á dælubíla síðasta sólarhringinn.
Jafnframt var mikið álag á sjúkraflutningafólk því síðasta sólarhringinn fór það í 130 sjúkraflutninga, þar af 18 útköll í hæsta forgangi og 23 verkefni tengd Covid-19.